Ljósin í Turninum Mánudagur 5.desember

Ljósin í Turninum er spennandi og skemmtileg bókasería fyrir börn eftir Arnheiði Borg. Í seríunni eru 7 bækur sem segja frá litríkum sjöburum og ævintýrum þeirra í ríkjum Regnbogasala sem einnig eru sjö. Sjöburarnir eru börn konungshjónanna í Kjarnanum, innst í Regnbogasölum, þar sem ljósin í Turninum bjarta lýsa skært. En sjöburarnir eiga það til að vera býsna hrekkjóttir. Einn daginn fara systkinin yfir strikið og hljóta þungbæra refsingu. Þar að auki slokkna ljósin í Turninum.

Til að bæta fyrir gerðir sínar, þroska hegðun sína og leitast við að láta ljósin kvikna á ný, eru þau send frá Kjarnanum til að kanna Regnbogaríkin sjö sem kennd eru við litina: Rauða ríkið, Rauðgula ríkið, Gula ríkið, Græna Ríkið, Blágræna Ríkið, Bláa ríkið og Fjólubláa ríkið. Í hverju ríki eiga þau að leysa ákveðin verkefni og leita að mikilvægu lykilorði. Þau lenda í margvíslegum ævintýrum, þurfa að læra að taka réttar ákvarðanir, treysta innsæi sínu og skilja hvað er mikilvægast í lífinu.

Höfundurinn, Arnheiður Borg, myndskreytti einnig bækurnar en hún hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2008 m.a. fyrir útgáfu bóka um lífsgildin og mannleg samskipti.

Í seríunni eru sjö bækur:

  1. Rauða Ríkið
  2. Rauðgula Ríkið
  3. Gula Ríkið
  4. Græna Ríkið
  5. Blágræna Ríkið
  6. Bláa Ríkið
  7. Fjólubláa Ríkið