Karl Jóhann Jónsson Vefsíða 

Karl Jóhann Jónsson er fæddur 15. Júlí, 1968. Hann ólst upp í Laugarneshverfinu, bjó svo lengi vel í vesturbænum í Reykjavík en er í dag Kópavogsbúi. Hann lauk stúdentsprófi á uppeldisbraut frá FÁ 1988 og var í Myndlistar- og Handíðaskóla Íslands 1989-1993. Hann lauk prófi frá málarabraut en hafði áður verið á ýmsum námskeiðum Í Myndlistarskólanum í Reykjavík.

Meðfram myndlist vann Karl við garðyrkju hjá Kirkjugörðunum í Reykjavík en kenndi líka mörg námsskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Árið 2007 fékk hann kennsluréttindi frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað sem myndmenntakennari síðan. Meðfram kennslu og málun – og þá helst portrettmálun – hefur Karl unnið mikið við myndskreytingar af ýmsum toga, og prýða myndir hans t.d. námsbækur frá Námsgagnastofnun og ýmsar barnabækur.

Auk þess hefur hann sjálfur skrifað tvær bækur fyrir yngstu kynlsóðina: Sófus og svínið og Smákon.

Sófus og Svínið var gefin út af Námsgagnastofnun árið 2010 og hlaut Dimmalimm-verðlaunin en þau eru veitt fyrir bestu myndskreytingu í barnabók ár hvert .

Smákon var gefin út af NB forlagi árið 2015 og fjallar um lítinn búalf og hin ýmsu vandamál sem hann glímir við. Kveikjan að sögunni er tvíþætt, annarsvegar týnir höfundur hlutum gjarnan, sérstaklega öðrum sokknum og bíllyklum og hins vegar hefur hann haft þá áráttu að teikna álfa sem biðu eftir að komast í bók.

Karl Jóhann er kvæntur Rannveigu Ásgeirsdóttur og saman eiga þau þrjú börn og tvo hunda.