Halldór Pétursson

Halldór Pétursson (1916 – 1977) var íslenskur myndlistarmaður og teiknari.

Halldór byrjaði ungur að teikna og varð snemma þekktur fyrir teikningar sínar. Hann sótti einkatíma hjá málurunum Guðmundi Thorsteinsson (Mugg) og Júlíönu Sveinsdóttur. Halldór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935. Þaðan fór hann til náms við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn og lauk prófi í auglýsingateiknun árið 1938. Hann starfaði upp frá því við ýmiss konar teiknivinnu og auglýsingagerð.

Árin 1942 – 1945 fór Halldór í framhaldsnám við Minneapolis School of Art og Art Students League í New York. Að því loknu fékkst hann aðallega við myndskreytingar og skopteikningar og var mikill frumkvöðull á því sviði.

Árið 1976 kom út bókin Helgi skoðar heiminn en Njörður P. Njarðvík var þá fengin til að semja sögu við teikningar Halldórs. Bókin er talin til tímamótaverka í sögu íslenskra barnabókmennta, þar sem texti og myndir gegndu jöfnu hlutverki.

Halldór myndskreytti fjölda bóka og rita um ævina. Meðal annars myndskreytti hann tímaritin Spegilinn og Vikuna. Meðal frægustu teikninga hans eru myndaröð heimsmeistaraeinvígisins í skák þegar Boris Spassky og Bobby Fischer háðu í Reykjavík 1972 og þorskastríðsmyndir sem voru birtar í blöðum og tímaritum út um allan heim. Halldór hafði einnig mikinn áhuga á hestum og voru hestamyndir eitt af „vörumerkjum“ hans.